Bóka gistingu

24.02.2016

Alþjóðleg ráðstefna um framtíð bíla- og skipavéla knúnar metanóli

Alþjóðleg ráðstefna um þróun og framtíð bíla- og skipavéla knúnar metanóli var haldin í ráðstefnusalnum Gullteigi á Grand Hótel 23. febrúar síðastliðinn. Ráðstefnan var haldin af Carbon Recycling International eða CRI og á ráðstefnuna voru saman komnir helstu alþjóðlegu sérfræðingar á sviði bíl- og skipavéla sem knúnar eru metanóli. Meðal umfjöllunarefnis á ráðstefnunni má nefna sprengihreyfla, tengiltvinnbíla og efnarafala. 

Efni ráðstefnunnar höfðaði til allra sem láta sig umhverfið varða og hafa áhuga á umhverfisvænum lausnum í samgöngum og sjávarútvegi og varpað var ljósi á helstu ógnanir og tækifæri á þeim sviðum. Einnig var svipt hulunni af fyrstu bílunum sem ganga fyrir hreinu metanóli en það er bílaframleiðandinn Geely, sem er hluthafi í CRI, sem framleiðir þá. Prófanir á þessum bílum munu fara fram hér á landi á næstunni og verður það í gegnum samstarfsverkefni CRI, Geely og Brimborgar.

Meðal sérfræðinga sem sóttu ráðstefnuna voru yfirmenn rannsókna- og þróunardeildar Geely verksmiðjunnar og Fiat Chrysler samsteypunnar, en þeir hafa unnið að þróun bílvéla fyrir metanól. Einnig voru ráðgjafar frá Wärtsilä í Finnlandi, sérfræðingar frá MIT háskólanum í Boston, Chalmers tækniháskólanum í Gautaborg ásamt fleirum.

Við á Grand Hótel Reykjavík þökkum kærlega fyrir samstarfið og minnum fólk á að huga að umhverfinu.