Bóka gistingu

03.11.2015

Grænn dagur, endurvottun á Svansvottun hótelsins

Grand Hótel Reykjavík fékk Svansvottun sína endurnýjaða á ráðstefnu á vegum Ríkiskaupa sem haldin var á hótelinu fyrr í dag. Að þessu sinni er ráðstefnan hluti af norrænni viku tileinkaðri grænum innkaupum en yfirskrift ráðstefnunnar í ár er „Opinber innkaup – Markviss innkaup“.

„Stærsti ávinningur aðildar að norrænu Svansvottuninni er að hún skapar betri og umhverfisvænni rekstur fyrir hótelið og viðskiptavini þess. Ávinningurinn er ekki síður fjárhagslegur þar sem að lægra minna er eytt í förgun á sorpi og með grænu bókhaldi fæst til að mynda betra verð í rekstrarvörur,“ segir Guðlaugur Sæmundsson innkaupastjóri Íslandshótela og bætir við að þetta sé stór dagur fyrir alla starfsmenn fyrirtækisins sem eru afar stoltir í dag.  

Til gamans má geta þess að ef við á Grand Hótel Reykjavík værum ekki að stunda sorpflokkun þá væri hent í óflokkað sorp, magni sem samsvarar 150 Yaris bifreiðum á einu ári. 

Grand Hótel Reykjavík, vill vera leiðandi í umhverfisstarfi ferðaþjónustufyrirtækja, hlaut sína fyrstu Svansvottun árið 2012. Starfsfólk hótelsins vinnur markvisst að því að lágmarka alla orku- og vatnsnotkun ásamt því að flokka og senda úrgang til endurvinnslu. Á hótelinu eru eingöngu notuð vottuð hreinsiefni og þess má einnig geta að gestum hótelsins stendur til boða að snæða lífrænan morgunverð sem vottaður er af vottunarstofunni Tún.