Bóka gistingu

19.02.2015

Hvít-súkkulaði- og ástríðufrauðkaka með karamellutoppi

Að hætti Vignis Hlöðverssonar yfirmatreiðslumeistara á Grand Hótel Reykjavík

Kókosbotn
4 eggjahvítur
200 g sykur
200 g kókosmjöl (brúnað létt á pönnu eða í ofni)

Ofn hitaður í 150°C. Eggjahvítur og sykur þeytt vel saman og kókosmjöli bætt varlega saman við, sett í form og bakað í um 35 mín. Látið kólna, súkkulaðimúsin sett í botninn og látin stífna síðan er ástríðumúsin sett varlega yfir og slétt vel, látið kólna. Að lokum er karamellan sett yfir og látin kólna.

Hvít súkkulaðimús
0,3 ml mjólk
1-2 vanillustöng, helst af gerðinni tahiti 
8 g matarlím, 5-6 blöð
350 g hvítt súkkulaði 
0,2 l rjómi, léttþeyttur

Setjið matarlímið í kalt vatn. Skafið vanilluna í pott ásamt mjólkinni. Hitið mjólkina að suðu og látið standa í 15 mín. Hitið mjólkina aftur upp og látið gelatínið leysast upp í henni. Hellið yfir fínt hakkað súkkulaðið í tveimur skömmtum og hrærið út með sleikju. Þegar blandan skín og súkkulaðið er brætt er blöndunni hellt yfir léttþeyttan rjómann í mjórri bunu. Hrærið létt í með sleikju á meðan hellt er. 

Ástríðualdinfrauð
Takið tæplega helming af músinni og bætið í safanum af ástríðualdinum og blandið varlega.

Karamellukrem
2½ dl rjómi
1½ dl sykur
3 msk. síróp
2 msk. smjör
1 tsk. vanilludropar
1 msk. glúkósi
1-2 blöð matarlím

Setjið rjómann, sykurinn og sírópið í pott og sjóðið þar til blandan þykknar (20-30 mín.). Hrærið í öðru hvoru. Hrærið smjörinu og vanilludropunum saman við ásamt glúkósa og útbleyttu matarlími.

Verði ykkur að góðu.