Bóka gistingu

18.11.2015

Íslandshótel undirrituðu yfirlýsingu Festu

Íslandshótel undirrituðu yfirlýsingu Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, sem varðar aðgerðir í loftslagsmálum þann 16. nóvember síðastliðinn. Yfirlýsingin var undirrituð í Höfða og felur í sér skuldbindingu þátttakenda til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs. Jafnframt ber sömu aðilum skylda til þess að mæla árangurinn sem hlýst af aðgerðum og gefa út reglulega upplýsingar þess efnis. Yfirlýsingin, sem er samstarfsverkefni Festu og Reykjavíkurborgar, þótti ganga framar öllum vonum en alls voru 103 fyrirtæki og stofnanir sem skuldbundu sig verkefninu. Yfirlýsingin verður síðan afhent á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fer fram í París í byrjun desember.

Áhrif og afleiðingar vegna loftslagsbreytinga eru vandamál sem þjóðir heimsins standa frammi fyrir. Sameinuðu þjóðirnar sinna því starfi að greina vandann sem felst í loftslagsbreytingum, takast á við hann og hjálpa okkur öllum að aðlagast breyttum aðstæðum. Það að borgir, bæir og fyrirtæki standist þau markmið sem sett hafa verið varðandi útblástur gróðurhúsalofttegunda er mjög mikilvægt fyrir framtíð okkar allra.