Bóka gistingu

Umhverfisstefna Grand Hótel Reykjavík

Grand Hótel Reykjavík vinnur eftir ströngum gæða- og umhverfisstöðlum og hefur fengið Svansvottun og vottun frá Túni.


Svansvottun

Svansvottað hótel

Grand Hótel Reykjavík hefur hlotið Svansvottun, vottun Norræna umhverfismerkisins samkvæmt viðmiðunarreglum fyrir hótel. 

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi sömu möguleika og núverandi kynslóð hefur til að mæta þörfum sínum. 

Með tilkomu Svansins lágmarkar Grand Hótel Reykjavík heildarumhverfisáhrif hótelstarfseminnar, vinnur markvisst að lágmörkun orku- og vatnsnotkunar, kaupir inn vistvænar og lífrænt ræktaðar vörur, auk þess sem allur úrgangur er flokkaður og endurunnin.


Náttúruvænt hótel — laust við rafsegulmengun

Grand Hótel Reykjavík er náttúruvænt hótel sem státar af því að vera laust við allar rafmagnstruflanir og rafmengun. Við stækkun hótelsins var lögð áhersla á að ganga frá rafmagni með þeim hætti að húsið væri laust við allar rafmagnstruflanir og rafsegulmengun.

Allt burðarvirki var tengt við um 200 bergfestur sem ná sex metra inn í bergið undir hótelinu. Allt burðarvirki hússins, loftræsistokkar, ofnalagnir og allt rafkerfi var tengt við jarðtengingu í 80 metra holu undir hótelinu. Í eldri hluta hótelsins var burðarvirkið tengt saman við lagnir sem voru síðan tengdar inn á holuna. Holan virkar sem útgangspunktur fyrir alla óæskilega tíðni sem getur haft truflandi áhrif á bæði menn og búnað. Kerfið heldur segulsviðinu undir 0.6 milligásum á fermetra sem er töluvert undir 8 milligása stöðlum í reglugerðum. Til samanburðar má nefna að rafmagnstæki sem notuð eru á heimilum og í fyrirtækjum geta gefið frá sér 40-100 milligása rafsvið.